VELKOMIN Í KRAUMA
Krauma er staðsett hjá Deildartunguhver, skammt frá Reykholti.
Krauma er í 97 kílómetra fjarlægð frá Reykjavík.
Komdu við í Krauma og upplifðu sjarma Vesturlands.
Deildartunguhver í Reykholtsdal er vatnsmesti hver Evrópu. Hverinn er skýrt dæmi um þá ógnarorku sem býr í jörðinni, en kraumandi hverinn spúir upp um 180 lítrum af 100°C heitu vatni á sekúndu. Þessi náttúruauðlind hefur eflaust verið nýtt til þvotta og matarsuðu öldum saman en fyrir 80 til 90 árum var um 600 metra timburstokkur smíðaður til að flytja gufu að gamla húsinu í Deildartungu. Með gufunni mátti hita upp húsið, sjóða mat í gufupotti, auk þess sem íbúar gátu farið í heita sturtu og gufubað sem þóttu einstök þægindi á þeim tíma.
Jörðin Deildartunga hefur verið í eigu sömu ættar í yfir 200 ár en áður en Deildartunguhver var tekin eignarnámi af íslenska ríkinu var hann í eigu Sigurbjargar Björnsdóttur (1886-1984). Hún var lengst af húsfreyja í Deildartungu og stýrði þar stóru heimili. Hún þekkti vel heilsusamleg áhrif heita vatnsins á bæði líkama og sál. Með Krauma er loks komið að því að hugmyndir Sigurbjargar hafa orðið að veruleika og almenningi gert kleift að baða sig í þessu heilnæma og steinefnaríka vatni Deildartunguhvers.